Mótuð af náttúrunni
Nýtt ár gengur senn í garð og þá er til siðs að líta yfir farinn veg, áskoranir og sigra og setja sér markmið fyrir komandi ár.
Óhætt er að segja að áskoranir hafi verið af ýmsum toga undanfarið, hvort sem litið er til samfélagsins, náttúrunnar eða umheimsins. Það hefur því verið ómetanlegt að geta boðið gestum okkar að gleyma daglegu amstri með upplifun sem á engan sinn líka. Við fyllumst þakklæti þegar við hugsum til allra þeirra sem lagt hafa leið sína til Bláa Lónsins til þess að upplifa vatnið, umhverfið og söguna og tökum hlutverki okkar alvarlega–að veita gestum jákvæða og einstaka upplifun sem fer fram úr væntingum.
Út á við hefur ár Bláa Lónsins einkennst af jarðhræringum og afleiðingum þeirra. Jörðin vaknaði við Sundhnúksgígaröðina í nóvember 2023 og þar með hófst atburðarrás sem setti svo sannarlega svip sinn á umhverfi, fólk og fyrirtæki. Orð ársins í okkar bókum er líklega landris, en orðin loftgæðaspá, hraunflæði og kvikuhólf fylgja þar fast á eftir.
Þegar við lítum yfir farinn veg og gerum þetta tímabil upp kveður þó við aðeins annan tón: árið hefur frekar einkennst af þrautseigju, samheldni og samvinnu og þeirri ótrúlegu aðlögunarhæfni sem fólk býr yfir þegar á reynir.
Gosið hefur sjö sinnum í Sundhnúksgígaröð síðan hrinan hófst. Samhliða eldgosum mældust þúsundir jarðskjálfta í og við Svartsengi og sumir svo öflugir að þeirra varð vart vítt og breitt um landið. Við höfum því bæði verið í forvörnum og viðbragði á árinu en þó hefur ekki síður reynt á mannlega þáttinn.
Við höfum aðstoðað starfsfólk við að finna ný heimkynni, fundið gistingu fyrir erlenda hótelgesti, ferjað gesti og starfsfólk með rútum á milli staða, haldið nytjamarkaði, boðið upp á samverustundir, haldið þjálfunardaga, sinnt fræðslu um jarðhræringar, veður og vinda, haldið vikulega upplýsingafundi, lokað vegum, opnað vegi, misst bílastæði, breytt áætlunum, boðið starfsfólki aðgang að velferðartorgi, þurft að rýma og loka og miðlað sérfræðiþekkingu samhliða því að skapa umgjörð sem eflir starfsfólk og tryggir öryggi gesta. Við höfðum aðgang að ómetanlegri þekkingu og ráðgjöf frá sérfræðingum á árinu og réðumst í verkefni af ýmsum toga sem myndi taka of langan tíma að gera ítarleg skil. Á meðal verkefna á athafnasvæði okkar voru:
· 4 nýir vegir yfir hraun · Upplýsingasíða jarðhræringa uppfærð um 200 sinnum · 30 uppfærslur á rýmingaráætlunum · 40 rýmingarfulltrúar þjálfaðir · 12 prófanir á loftvarnarflautum · 7 rýmingar · 90 gasmælar settir upp · 176 skilti framleidd · 56 upplýsingafundir innanhúss · 144 auka tölvupóstar til gesta · 1,5 milljónir rúmmetrar af möl í varnargarða í kringum Svartsengi · 10km af vegum lagðir yfir nýtt hraun
Þetta hefur verið risastórt verkefni. Því stendur samtakamáttur alls starfsfólks upp úr á árinu. Við erum vissulega mótuð af náttúrunni en við lærum af henni, aðlögum okkur og höldum áfram.
Þakklæti er okkur efst í huga þegar við lítum yfir farinn veg. Við erum þakklát fyrir þá sérfræðikunnáttu sem við höfum aðgang að, þakklát fyrir varnargarðana sem verja mikilvæga innviði og efla öryggi fólks og þakklát fyrir starfsfólkið okkar og gesti.
Við tökum verðmæta þekkingu og reynslu með okkur, horfum bjartsýn fram á veginn og mætum árinu 2025 af þakklæti, æðruleysi og auðmýkt. Allt getur gerst þegar Móðir Náttúra situr við stjórnvölinn.
Við tökum hlýlega á móti ykkur með hækkandi sól og hlökkum til að skapa minningar með gestum hvaðanæva að úr heiminum.