Mótuð af náttúrunni
Nýtt ár gengur senn í garð og þá er til siðs að líta yfir farinn veg, áskoranir og sigra og setja sér markmið fyrir komandi ár.
Árið 2024 hjá Bláa Lóninu einkenndist fyrst og síðast af þrautseigju, samheldni og samvinnu. Jarðhræringartímabilið sem hófst 2021 færði sig um set og settist að í Sundhnúksgígaröðinni í nóvember 2023. Þar með hófst atburðarrás sem setti svo sannarlega svip sinn á umhverfi, fólk og fyrirtæki.
Eldgos í Sundhnúksgígaröð voru 6 á árinu og gosið í nóvember var það sjöunda í hrinunni. Þeim fylgdu þúsundir jarðskjálfta. Orð ársins er líklega landris, en orðin loftgæðaspá, hraunflæði og kvikuhólf fylgja þar fast á eftir.
Allt í allt hefur Bláa Lónið í Svartsengi verið lokað í 122 daga síðan umbrot í Sundhnúksgígaröð hófust. Hótelin okkar, Silica Hotel og Retreat Hotel, hafa þurft að hafa lokað í 129 daga á sama tímabili. Lokanir voru ýmist vegna kvikuinnskots, eldgoss, eða loftgæða. Á meðan á lokunum stóð nýtti starfsfólk tímann og sat rýmingarnámskeið, fræddist um jarðfræði Svartsengis, sat námskeið um gas og veður og studdi samstarfsfólk sitt sem jafnvel hafði þurft að yfirgefa heimili sín í Grindavík. Settur var upp nytjamarkaður í skrifstofuhúsnæði okkar í Garðabæ þar sem hægt var að nálgast þær nauðsynjar sem á þurfti að halda.
Ný áskorun setti jafnframt svip sinn á árið. Gas sem fylgdi eldsumbrotunum krafðist uppfærslu á öllu verklagi okkar. Því miður veiktist einn starfsmaður okkar þegar þessi nýja áskorun bankaði upp á en viðkomandi náði sér að fullu og sneri aftur til starfa. Sökum þessa nýja verkefnis settum við upp net gasmæla á athafnasvæði okkar, bæði fasta og færanlega, og starfsfólk hlaut sérstaka þjálfun í viðbragði, aflestri og úrvinnslu. Nú erum um 40 gasmælar í Svartsengi sem eru í gangi allan sólarhringinn á meðan á eldgosi stendur og rýmingaráætlanir uppfærðar með tilliti til mengunarstyrks, vindáttar og veðurs. Eins eru loftvarnarflautur á svæðinu sem nýttar eru við rýmingu. Flauturnar voru prófaðar með reglulegu millibili á árinu til þess að tryggja virkni, alls 12 sinnum.
Alls þurfti að rýma starfsstöðvar okkar sjö sinnum á árinu, ýmist vegna yfirvofandi eldgoss eða kvikuhlaups. Þökk sé ótrúlegu starfsfólki gengu rýmingar snurðulaust fyrir sig gestir hafa haft orð á því hversu fumlaust og rólegt starfsfólk hafi verið í þessum viðburðum, sem vissulega geta verið streituvaldandi og óþægilegir. Þjónustukannanir voru framkvæmdar eftir hverja rýmingu og þær rýndar svo hægt væri að betrumbæta rýmingaráætlanir og samskipti til gesta. Niðurstöður voru heilt á litið mjög jákvæðar og hafa nýst okkur vel í umbótastarfi.
Aðkoma að starfsstöðvum okkar tók einnig þó nokkrum breytingum á árinu. Þar ber líklega hæst að bílastæðið okkar utan varnarveggja fór undir hraun og með því tímabundin gámahús sem voru í hlutverki töskugeymslu. Þessi atburður kallaði á endurskipulag á nýju aðkomuhúsi, en vinna við þá framkvæmd var þegar hafin. Finna þurfti nýjan stað fyrir aðkomuhús og bílastæði og taka mið af legu lands og varnargarða.
Þess utan rann hraun alls fimm sinnum yfir Grindavíkurveg. Það kallaði því á breyttar akstursleiðir. Gestum var oftast beint um Nesveg en í gosinu sem hófst í nóvember í ár breyttust aðstæður töluvert meira þar sem bílastæðið hvarf og gestum því bent á að leggja við Grindavík þegar opnað var aftur 6. desember. Skutlur tóku þá við gestum og ferjuðu í Svarstengi.
Jarðhræringatímabilið hefur líka gefið okkur rými til þess að sinna endurbótum og uppfærslum. Nú standa yfir framkvæmdir á Silica Hotel, þar sem innri rými fá andlitslyftingu og yfirhalningu. Einnig er vinna í gangi við búningsaðstöðu í Bláa Lóninu, nýtt gufubað og nuddfoss. Auk mun nýtt aðkomuhús bæta upplifun gesta til muna. Okkur reiknast einnig til að við höfum framleitt um XX skilti tengd framkvæmdum og tímabundnum akstursleiðum.
Árið hefur því heldur betur verið viðburðarríkt. Skýrar áætlanir fyrirtækisins eru virkjaðar þegar viðbúnaðarstig Almannavarna er hækkað, enda er að ýmsu að huga. Rútur eru við Svartsengi allan sólarhringinn og aukarútur til taks í Reykjanesbæ, ef til rýmingar kemur. Eins er framboð tekið niður í Svartsengi og færri gestir í húsi. Samskipti frá fyrirtækinu til gesta aukast með viðbótartölvupóstsendingum og úthringingum gerist þess þörf. Öryggisteymi og rýmingarfulltrúar stilla reglulega saman strengi og aukið er við mönnun.
Um 800 manns starfa hjá Bláa Lóninu, frá um 40 þjóðernum og því mikilvægt að innri upplýsingagjöf væri skilvirk og skiljanleg. Haldnir hafa verið vikulegir upplýsingafundir fyrir allt starfsfólk, bæði innan Svartsengis og utan, þar sem nýjustu upplýsingum er miðlað. Stjórnendur sitja reglulega fundi–daglega eða vikulega, eftir viðbúnaðarstigi–með Veðurstofu Íslands, Almannavörnum, verkfræðingum hjá Eflu, veðurfræðingum hjá Bliku og fleiri sérfræðingum. Efni fundanna er svo miðlað til starfsfólks svo það upplifi öryggi, auki við þekkingu sína og eflist í öllu viðbragði.
Þó er fátt svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Við erum þakklát fyrir þá sérfræðikunnáttu sem við höfum aðgang að, þakklát fyrir varnargarðana sem verja mikilvæga innviði og efla öryggi fólks og þakklát fyrir starfsfólkið okkar og gesti.
Ótrúlegur samtakamáttur alls starfsfólks gerði það að verkum að við gátum opnað hratt og örugglega þegar það þótti öruggt og ávallt í fullu samráði við yfirvöld. Við tökum verðmæta þekkingu og reynslu með okkur,horfum bjartsýn fram á veginn og mætum árinu 2025 af þakklæti, æðruleysi og auðmýkt. Allt getur gerst þegar Móðir Náttúra situr við stjórnvölinn.
Við tökum hlýlega á móti ykkur með hækkandi sól og hlökkum til að skapa minningar með gestum hvaðanæva að úr heiminum.