Nudd ofan í Bláa Lóninu: Söguágrip

Þetta er sagan um hvernig einföld beiðni varð að upplifun sem þúsundir njóta.

Þetta er sagan um hvernig einföld beiðni varð að upplifun sem þúsundir njóta. Líkt og margar af bestu uppgötvunum í lífinu þá varð nuddið ofan í Bláa Lóninu ekki til af ásettu ráði. Það byrjaði með auðmjúkri beiðni sem varð að innblæstri fyrir frjótt hugvit sem var drifið áfram af viljanum til að skapa einstaka, ógleymanlega upplifun. Ólafía Jensdóttir er fædd og uppalin í sjávarþorpinu Grindavík, aðeins fimm kílómetra frá Bláa Lóninu. Hún minnist þess að hafa farið í Bláa Lónið að næturlagi sem táningur á þeim tíma sem töfrandi lónið með bláa vatninu var talið vera ónothæf hliðarafurð af virkjuninni í Svartsengi. Þetta var árið 1978 þegar svæðið var algjörlega umsjónarlaust og talsvert hætta stafaði af bollum með brennheitu vatni og skörðóttu hrauninu. Ólafía hóf störf hjá Bláa Lóninu árið 1996. Þá þegar höfðu heilnæm áhrif vatnsins í lóninu verið rannsökuð og formlega viðurkennd og lagt grunninn að húðvörulínunni. Jafnframt hafði meðferðarklíník þá verið reist á bökkum lónsins. Fólk með sóríasis kom þangað til meðferðar sem var byggð á læknandi eiginleikum jarðsjávarins og ljósameðferð með útfjólubláum geislum. Ólafía hafði hlotið þjálfun sem nuddþerapisti og einn dag í viku – á hverjum miðvikudegi – hafði hún umsjón með nuddi á bekkjum inni í bráðabirgðahúsnæði klíníkurinnar. Í júlí 1999 var gamla lóninu lokað og öll mannvirki sem því tilheyrðu voru rifin niður og lónið eins og við þekkjum það í dag, með sínum undurfagra lífræna arkitektúr, var opnað. Þegar hér var komið sögu varð til nudd ofan í vatni. Ólafía man glöggt eftir fyrsta neistanum sem kveikti þá hugmynd. Hún var stödd heima hjá sér í Grindavík þegar hún fékk símtal frá Magnúsi Jakobssyni starfsmanni Bláa Lónsins sem hafði umsjón skyndihjálparnámskeiða sem aðalstarf. „Hann hringdi í mig einn daginn“ segir Ólafía, „og spurði hvort ég gæti komið og nuddað konu sem vildi fá nudd ofan í vatninu. Þannig að ég fór á staðinn og sat í þrepunum að lóninu og veitti henni dálítið nudd. Kannski í tíu eða tuttugu mínútur; svo fór ég heim.“ Þó að þessi kona hafi setið upprétt á meðan hún þáði nuddið, þá áttaði Ólafía sig strax á hvaða möguleikar fólust í því að yfirfæra þær aðferðir sem notaðar eru við nudd á bekkjum innanhúss yfir á hið stóra útisvið; ofan í hlýtt og endurnærandi lónið í dáleiðandi umhverfinu. Nokkrum vikum síðar hringdi Magnús aftur: „Það var vegna sjónvarpsþáttar sem hét Djúpa laugin,“ segir Ólafía og bætir við: „Þetta var stefnumótaþáttur og fólkinu sem kom var boðið upp á einhvern pakka. Þetta voru tvær manneskjur og ég sat á þrepunum og gerði það sem ég hafði gert fyrir konuna og við gerðum þetta dálítið kósý með því að kveikja á kertaljósum. Og það var annað skref.“

Upprunalegi neistinn var nú orðinn að loga og hugmyndaflug Ólafíu var komið á fullan snúning. Stærsta áskorunin var að finna út hvernig hægt væri að veita nudd fyrir allan líkamann ofan í vatninu – finna leið til að sameina sæluna sem fylgir mannlegri snertingu og dásemdir Bláa Lónsins. Að framkvæma nudd sitjandi í þrepunum endurspeglaði ekki þá sýn sem hafði mótast í huga hennar. „Ég man að þegar fyrsta konan kom og ég sat í þrepunum og nuddaði axlir hennar, þá hugsaði ég: Þetta er svo stórkostlegt! Vegna þess að ég var svo heilluð af allri náttúrunni, öllum kröftunum. Og þetta hafði það allt: jörð, vatn, eld, loft og rými.“ Nokkrum vikum síðar hringdi Magnús aftur til Ólafíu. Magnea Guðmundsdóttir, forstöðukona kynningamála hjá Bláa Lóninu, vildi bjóða upp á þetta upprennandi form af nuddi á hverjum sunnudegi.

Prófaðu okkar einstöku nuddmeðferð

Einstök reynsla sem sameinar ummlykjandi krafta jarðsjávarins og endurnærandi sælu nuddsins.

„Ég sat í þrepunum“ segir Ólafía. „Þetta var á sunnudögum í einn eða tvo mánuði. En þessu óx fljótt fiskur um hrygg og að lokum var þetta í boði alla daga. Allt þetta gerði mig mjög spennta og ég velti fyrir mér hvernig ég gæti gert þetta betur. Ég vildi gera meira; ég vildi geta boðið upp á nudd fyrir allan líkamann í vatninu en ég vissi ekki hvernig ég ætti að fara að því. Ég prófaði ýmsar hugmyndir, gerði tilraunir með flot en ekkert af því virkaði sem skyldi.“ Síðan gerðist það dag einn, eftir að Ólafía hafði lokið við jógaæfingu heima hjá sér, að henni varð litið á jógadýnuna sína og spurningu laust niður í huga hennar; gæti þetta nýst sem fljótandi búnaður fyrir nudd ofan í vatni? „Þannig að ég tók dýnuna með mér í Bláa Lónið og setti hana út í vatnið og skrapp svo í sturtu. Ég ákvað það að ef hún væri enn á floti þegar ég kæmi úr sturtunni, skyldi ég prófa að nota hana til að láta fólk fljóta. Og þetta varð raunverulegt upphaf á nuddi ofan í vatni.“ En það voru fleiri vandamál sem þurfti að leysa. Veðrið er alræmt fyrir að vera óútreiknanlegt en Ólafía var ekki á því að takamarka þessa upplifun við þann tíma sem veðrið var til friðs. Til að yfirstíga þessa hindrun þá notaði hún teppi. Á þann hátt gat manneskjan sem var nudduð verið á floti en jafnfram haft það huggulegt, hvort heldur það var í rigningu, snjókomu eða roki. „Þegar ég tók teppið í notkun fannst mér ég vera að nálgast takmark mitt,“ segir Ólafía. „En mig vantaði ennþá eitthvað sem fólk gat lagt höfuðið á. Þannig að ég tók uppblásanleg handleggjabönd – barnakúta – skar í tvennt og prófaði það og mér fannst það vera enn annar partur af púslinu. Ég var að spila þetta af fingrum fram alla leið.“ Þetta nýja form af nuddi, sem gekk í gegnum sífelldar betrumbætur knúnar áfram af sköpunargleði Ólafíu, varð fljótt svo vinsælt að ráða þurfti fleiri þerapista til starfa sem sérstaklega sinntu nuddi ofan í vatni. Ólafía deildi glöð sínum uppgötvunum með starfsfélögunum. Hún var ötul talskona fyrir þessa nýju tegund meðferðar. „Þetta var eins og kvikmynd í höfðinu á mér,“ segir hún. „Ég var svo heilluð. Ég man eftir því að hafa komið heim og sagt við manninn minn: Vá, mig langar að gera svo mikið úr þessu, það eru svo miklir möguleikar. Ég hafði aðeins hlotið þjálfun í að nudda á bekk þannig að fyrir mér voru þetta allt ókannaðar lendur.“ Ótrúlegur uppgangur nudds ofan í Bláa Lóninu varð fljótt til þess að staðsetning þess innan lónsins réði ekki við umfangið. Svæðið hjá þrepunum hentaði ekki lengur fyrir þessa meðferð. Það var hvorki nógu stórt né nægilega hljóðlátt. Því var hannað nýtt svæði í lóninu sem eingöngu er ætlað fyrir nudd ofan í vatni. „Ég var svo hugfangin og uppljómuð. Ég vildi að fólk upplifði þetta. Mig langaði ekki að fara heim því þetta var svo skemmtilegt. Og á nóttinni, í tunglskini, norðurljósum, snjókomu, brjáluðu veðri og í hlýju vatninu að nudda – það var stórfenglegt.“ Á árunum sem fylgdu í kjölfarið var unnið að samræmingu fyrir nudd ofan í vatni til að fullkomna það og gera kerfisbundið. Jafnframt voru endurnærandi frumefnin í jarðsjó lónsins innlimuð í meðferðina sem opnar á gnægð tækifæra fyrir heilbrigði, vellíðan, unað og slökun. Nudd ofan í vatni virkjaði þannig hið uppbyggilega samspil líkamlegrar snertingar þerapistans og flókinna eiginleika jarðsjávarins í umhverfi þyngdarleysis undir himni norðurhvelsins. Og allt kviknaði það út frá einfaldri ósk: að fá nudd undir vatni. Ólafía Jensdóttir býr ennþá í Grindavík og leggur stund á pólunarmeðferð. Þó að hún sé ekki lengur nuddari í Bláa Lóninu er hún stolt af þeirri arfleifð sem hún skildi eftir sig og dáist að því hvernig Bláa Lónið hefur á skömmum tíma orðið að miðdepli íslenskra áfangastaða hjá ferðamönnum. Spurð að því hvort hún bjóði upp á einkanudd í vatni hjá sér í Grindavík, segir hún: „Ég nota ekkert sem tengist vatni í mínu starfi. Vatnið er fyrir Bláa Lónið. Það er mjög sérstakur staður. Né heldur á ég hugmyndina að nuddi ofan í vatni. Hún er fyrir alla, hún er í geimnum. Ég kom bara og greip hana á lofti.“

Aðrar sögur

Blue Lagoon

Vatnið í Bláa Lóninu: gagnleg áhrif af „gjöf jarðvarmans“

16. ágúst 2021

Blue Lagoon

Bestu staðirnir til að taka myndir í Bláa Lóninu

30. apríl 2020

Skin Care

Tímaritið Vogue heiðrar Blue Lagoon Shampoo

24. feb. 2020

Blue Lagoon

Húðmeðferð Bláa Lónsins

17. ágúst 2021

Blue Lagoon

Sjálfbærni í Bláa Lóninu

2. mars 2022

Blue Lagoon

Kort af Bláa Lóninu

3. mars 2020

Bláa Lónið Norðurljósavegur 9 240 Grindavík Sjá á korti

+354 420 8800

Hafa samband

Mín bókun